Líkamsvitund

Til þess að skynja líkama okkar rétt þurfum við að nota:

  • Hreyfi- og stöðuskyn
  • Snertiskyn
  • Sjónúrvinnslu
  • Heyrn

Og þegar þessar upplýsingar koma saman gerir það okkur kleift að skynja líkamann rétt.

 

Ósýnileg miðlína

Það er lóðrétt ósýnileg lína sem liggur um miðjan líkama okkar og skiptir honum til helminga. Að geta farið með hendur og fætur yfir þessa ósýnilegu línu er mikilvægt fyrir hreyfiþroska barnsins og samhæfingu handa.

Ef barnið getur ekki krossað yfir línuna mun það t.d. eiga erfitt með að klæða sig í sokka, reima skóna sína, lesa, skrifa, stunda íþróttir og margar aðrar daglegar athafnir.

Það eru börn sem eiga erfitt með þessa hluti og stundum skipta þau um hönd við ákveðnar athafnir þegar kemur að miðlínunni eða snúa upp á líkamann til að ná í það sem annars væri hinum megin við miðjuna.

Hægt er að aðstoða þau börn sem eiga við þetta vandamál að stríða með æfingum og leikjum sem krefjast þess að þau krossi hendur og fætur yfir miðlínuna og gera það reglulega þangað til heilinn hefur meðtekið hreyfinguna. Þetta er hægt að gera með ýmsum leikjum en það er líka gott að þjálfa þetta með fínhreyfiþjálfun, t.d. við að teikna myndir sem krefjast þess að þú dragir blýantinn frá vinstri til hægri.

Eins er hægt að venja börn við það að krossa allt frá upphafi og þá mögulega koma í veg fyrir vandamálið.

Lítur barnið þitt meira til annarar hliðar?

Þú getur aðstoðað barnið við að horfa í hina áttina með því að setjast oftar þeim megin sem barnið lítur síður til. Þaðan getur þú spjallað við það, komið með eitthvað spennandi dót til að sýna því, lesið fyrir það og jafnvel gefið barninu að borða frá þeirri hlið. Sér í lagi ef barninu finnst gott að borða 😊.

Skynfærin okkar.

Allir þekkja skynfærin fimm:

Sjónina, heyrnina, lyktina, bragðið og snertinguna sem hjálpa okkur gífurlega mikið í gegnum lífið.

Sjónskynið er staðsett í augunum.

Með sjóninni greinum við liti, stærð, dýpt og hreyfingu í umhverfi okkar. Talað er um að sjónin sé mikilvægasta skynfæri okkar. Ef við missum sjónina eflast oft önnur skynfæri í staðinn.

Heyrnaskynið er staðsett í eyrum.

Heyrnin er mikilvæg í samskiptum fólks og til að fylgjast með því sem er að gerast í umhverfinu.

Bragðskynið er staðsett í tungunni.

Tungan greinir fjórar mismunandi bragðtegundir: salt, súrt, sætt og beiskt. En svo er talað um fimmtu bragðtegundina sem kölluð er umami og greinir sterkt eða kryddað bragð. Bragðskynið hjálpar okkur við að borða ekki skemmdan mat eða það sem getur gert okkur veik.

Lyktarskynið er staðsett í nefinu.

Samkvæmt vísindamönnum geta manneskjur fundið yfir 1 billjón mismunandi lyktartegunda. Það felst mikið öryggi í lyktarskyninu. Ef við erum t.d. að kveikja í þá finnum við brunalykt, ef maturinn sem við ætlum að fara að borða er farinn að úldna þá finnum við ýldufýlu og fleira.

Snertiskynið er staðsett í húð og slímhimnum.

Með snertiskyninu túlkum við létta snertingu, þrýsting, hita, sársauka og titring í gegnum húð. Ef barnið fær ekki næga örvun fyrir snertiskynið gæti farið svo að taugkerfið fari úr jafnvægi og barnið verði snertifælið.

En það eru tvö skynfæri í viðbót sem minna er talað um en eru ekki síður mikilvæg, þetta eru jafnvægisskyn og stöðuskyn.

Jafnvægisskynið er staðsett í innra eyra. 

Það samhæfir sjálfkrafa hreyfingar augna, höfuðs og líkama. Með jafnvægisskyninu skynjum við aðdráttarafl jarðar, við skynjum hreyfingu og kyrrstöðu, hversu hratt við förum og hvert við stefnum. Jafnvægisskynið hefur einnig áhrif á vöðvaspennu og líkamsburð.

Stöðuskynið  kemur frá vöðvum og liðamótum.

Með stöðuskyninu skynjum við stöðu okkar án þess að nota sjónina. Ef stöðuskynið er ekki í lagi fer barnið að treysta meira á sjónina og þá verður það oft klunnalegt í hreyfingum, setstaða þess verður oft slæm og það beitir sér ekki rétt.

Má örva barnið endalaust?

Til eru kenningar um það að örvun sé okkur jafn mikilvæg og matur. Heilinn sé hannaður til þess að taka endalaust við allskonar skynörvunum og ef það verður of mikið þá hættir heilinn bara að taka við.

Örvunin má samt ekki vera of mikil því ef það er endalaust verið að örva barnið þá getur það myndað þreytu og streytu hjá barninu. Foreldrar verða að fylgjast með líðan barnsins.

Það er mikilvægt fyrir ungabörn að fá að liggja á maganum í vökutíma.

Foreldrum nýbura hefur verið ráðlagt að láta börnin sín liggja á bakinu á meðan þau sofa til þess að koma í veg fyrir ungbarnadauða. Börnin liggja líka mikið á bakinu á meðan þau eru í vagninum hvort sem þau eru vakandi eða sofandi og eins í barnabílstólnum.  Þetta getur orðið til þess að þau fái flatan hnakka, snúi höfði sínu frekar í aðra áttina og nái ekki þeim styrk sem þarf til þess að skoða heiminn í kringum sig.  Því er nauðsynlegt að gefa þeim tíma á maganum þegar færi gefst og barnið er vel vakandi.

Það að liggja á maganum styrkir höfuð, háls, herðar og aðra vöðva efri útlima og þannig undirbýr barnið sig undir það að geta rúllað sér, teygt sig, skriðið og leikið sér. Legan á maganum er því ekki síður mikilvæg fyrir þroskaferil barnsins.

Æskilegt er að leggja börn á magann strax frá fæðingu þeirra.

Þá er t.d. hægt að leggja barnið ofan á bringuna þar sem barninu líður vel, heyrir hjartslátt ykkar, fær hlýjuna frá ykkur og finnur lyktina af ykkur. Það er líka hægt að leggja það á framhandlegginn og leyfa því að hvíla þar.

 

Hér eru nokkur góð ráð fyrir tímann á maganum:

  • Vert er að hafa í huga að vera alltaf fyrir framan barnið þegar það liggur á maganum.
  • Það þarf að fylgjast með barninu, passa að það þreytist ekki eða hvíli andlitið niðri og nái ekki andanum.
  • Ef þið sjáið að barnið er að þreytast, takið það þá upp og leggið barnið svo aftur á magan  þegar það er tilbúið til þess.
  • Veljið tíma þar sem barnið er glatt, satt og vel vakandi.

Gott er að byrja á 3-5 mínútum á maganum og vinna síðan upp í það að hafa barnið 40-60 mínútur á maganum daglega. Það er ekki verið að tala um allar þessar mínútur í einu heldur nokkrum sinnum yfir daginn í eins langan tíma og barnið þolir hverju sinni.

Gott er að setja barnið á magann á meðan þú ert að sinna því, eins og til dæmis þegar þú ert að þurrka því eftir baðið, skipta um bleyju eða bera á það krem.

Það er aldrei of snemmt að byrja að lesa fyrir barnið og gott að láta það liggja á maganum á meðan þú lest fyrir það.

Þegar barnið þitt liggur á maganum haltu þá á skemmtilegu dóti fyrir framan það til að ná athygli þess. Það fær barnið til þess lyfta höfðinu og teygja sig upp.

Á meðan barnið er á maganum er gott að raða dóti í kringum barnið svo það reyni að ná því úr ýmsum áttum.

Reyndu að ná augnsambandi við barnið á meðan það liggur á maganum, syngdu fyrir það, talaðu við það eða komdu með einhver skemmtileg hljóð til að vekja áhuga þess og fá það til að taka þátt.

Það að sjá andlit foreldra sinna eða systkina hvetur barnið til þess að reysa sig upp, því er gott að fá alla fjölskylduna með í það að hvetja barnið áfram.

Sjá frekari upplýsingar hér