Lítur barnið þitt meira til annarar hliðar?

Þú getur aðstoðað barnið við að horfa í hina áttina með því að setjast oftar þeim megin sem barnið lítur síður til. Þaðan getur þú spjallað við það, komið með eitthvað spennandi dót til að sýna því, lesið fyrir það og jafnvel gefið barninu að borða frá þeirri hlið. Sér í lagi ef barninu finnst gott að borða 😊.

Það er mikilvægt fyrir ungabörn að fá að liggja á maganum í vökutíma.

Foreldrum nýbura hefur verið ráðlagt að láta börnin sín liggja á bakinu á meðan þau sofa til þess að koma í veg fyrir ungbarnadauða. Börnin liggja líka mikið á bakinu á meðan þau eru í vagninum hvort sem þau eru vakandi eða sofandi og eins í barnabílstólnum.  Þetta getur orðið til þess að þau fái flatan hnakka, snúi höfði sínu frekar í aðra áttina og nái ekki þeim styrk sem þarf til þess að skoða heiminn í kringum sig.  Því er nauðsynlegt að gefa þeim tíma á maganum þegar færi gefst og barnið er vel vakandi.

Það að liggja á maganum styrkir höfuð, háls, herðar og aðra vöðva efri útlima og þannig undirbýr barnið sig undir það að geta rúllað sér, teygt sig, skriðið og leikið sér. Legan á maganum er því ekki síður mikilvæg fyrir þroskaferil barnsins.

Æskilegt er að leggja börn á magann strax frá fæðingu þeirra.

Þá er t.d. hægt að leggja barnið ofan á bringuna þar sem barninu líður vel, heyrir hjartslátt ykkar, fær hlýjuna frá ykkur og finnur lyktina af ykkur. Það er líka hægt að leggja það á framhandlegginn og leyfa því að hvíla þar.

 

Hér eru nokkur góð ráð fyrir tímann á maganum:

  • Vert er að hafa í huga að vera alltaf fyrir framan barnið þegar það liggur á maganum.
  • Það þarf að fylgjast með barninu, passa að það þreytist ekki eða hvíli andlitið niðri og nái ekki andanum.
  • Ef þið sjáið að barnið er að þreytast, takið það þá upp og leggið barnið svo aftur á magan  þegar það er tilbúið til þess.
  • Veljið tíma þar sem barnið er glatt, satt og vel vakandi.

Gott er að byrja á 3-5 mínútum á maganum og vinna síðan upp í það að hafa barnið 40-60 mínútur á maganum daglega. Það er ekki verið að tala um allar þessar mínútur í einu heldur nokkrum sinnum yfir daginn í eins langan tíma og barnið þolir hverju sinni.

Gott er að setja barnið á magann á meðan þú ert að sinna því, eins og til dæmis þegar þú ert að þurrka því eftir baðið, skipta um bleyju eða bera á það krem.

Það er aldrei of snemmt að byrja að lesa fyrir barnið og gott að láta það liggja á maganum á meðan þú lest fyrir það.

Þegar barnið þitt liggur á maganum haltu þá á skemmtilegu dóti fyrir framan það til að ná athygli þess. Það fær barnið til þess lyfta höfðinu og teygja sig upp.

Á meðan barnið er á maganum er gott að raða dóti í kringum barnið svo það reyni að ná því úr ýmsum áttum.

Reyndu að ná augnsambandi við barnið á meðan það liggur á maganum, syngdu fyrir það, talaðu við það eða komdu með einhver skemmtileg hljóð til að vekja áhuga þess og fá það til að taka þátt.

Það að sjá andlit foreldra sinna eða systkina hvetur barnið til þess að reysa sig upp, því er gott að fá alla fjölskylduna með í það að hvetja barnið áfram.

Sjá frekari upplýsingar hér