Líkamsvitund

Til þess að skynja líkama okkar rétt þurfum við að nota:

  • Hreyfi- og stöðuskyn
  • Snertiskyn
  • Sjónúrvinnslu
  • Heyrn

Og þegar þessar upplýsingar koma saman gerir það okkur kleift að skynja líkamann rétt.

 

Skynfærin okkar.

Allir þekkja skynfærin fimm:

Sjónina, heyrnina, lyktina, bragðið og snertinguna sem hjálpa okkur gífurlega mikið í gegnum lífið.

Sjónskynið er staðsett í augunum.

Með sjóninni greinum við liti, stærð, dýpt og hreyfingu í umhverfi okkar. Talað er um að sjónin sé mikilvægasta skynfæri okkar. Ef við missum sjónina eflast oft önnur skynfæri í staðinn.

Heyrnaskynið er staðsett í eyrum.

Heyrnin er mikilvæg í samskiptum fólks og til að fylgjast með því sem er að gerast í umhverfinu.

Bragðskynið er staðsett í tungunni.

Tungan greinir fjórar mismunandi bragðtegundir: salt, súrt, sætt og beiskt. En svo er talað um fimmtu bragðtegundina sem kölluð er umami og greinir sterkt eða kryddað bragð. Bragðskynið hjálpar okkur við að borða ekki skemmdan mat eða það sem getur gert okkur veik.

Lyktarskynið er staðsett í nefinu.

Samkvæmt vísindamönnum geta manneskjur fundið yfir 1 billjón mismunandi lyktartegunda. Það felst mikið öryggi í lyktarskyninu. Ef við erum t.d. að kveikja í þá finnum við brunalykt, ef maturinn sem við ætlum að fara að borða er farinn að úldna þá finnum við ýldufýlu og fleira.

Snertiskynið er staðsett í húð og slímhimnum.

Með snertiskyninu túlkum við létta snertingu, þrýsting, hita, sársauka og titring í gegnum húð. Ef barnið fær ekki næga örvun fyrir snertiskynið gæti farið svo að taugkerfið fari úr jafnvægi og barnið verði snertifælið.

En það eru tvö skynfæri í viðbót sem minna er talað um en eru ekki síður mikilvæg, þetta eru jafnvægisskyn og stöðuskyn.

Jafnvægisskynið er staðsett í innra eyra. 

Það samhæfir sjálfkrafa hreyfingar augna, höfuðs og líkama. Með jafnvægisskyninu skynjum við aðdráttarafl jarðar, við skynjum hreyfingu og kyrrstöðu, hversu hratt við förum og hvert við stefnum. Jafnvægisskynið hefur einnig áhrif á vöðvaspennu og líkamsburð.

Stöðuskynið  kemur frá vöðvum og liðamótum.

Með stöðuskyninu skynjum við stöðu okkar án þess að nota sjónina. Ef stöðuskynið er ekki í lagi fer barnið að treysta meira á sjónina og þá verður það oft klunnalegt í hreyfingum, setstaða þess verður oft slæm og það beitir sér ekki rétt.